top of page
Andrea-Edit.jpg

Andrea

Ég heiti Andrea Símonardóttir og er kærasta dásemdar blikkmeistarans, hans Gauta míns. Saman eigum við þrjú yndisleg börn. Við rekum stórheimilið okkar í miðdepli alheimsins - Kópavogi.

 

Ég deili afmælisdeginum mínum með ekki ómerkara fólki en Tony Bennett og Mörthu Stewart - 3. ágúst, sem gerir mig að ljóni og eins og sönnu ljóni sæmir er ég félagslynd, skapandi og hjartahlý. Ég hef allt mitt líf verið að skapa og hef unnið við grafíska miðlun/prentiðnað á einhvern hátt í nær fjórtán ár. Eins og fylgir oft skapandi fólki þá er ég alltaf með þúsund bolta á lofti; aragrúa af hugmyndum og hundrað flipa opna í tölvunni. Það getur tekið tíma að komast í gang vegna skipulögðu óreiðunnar í huganum en þegar ég tek að mér verkefni og er tilbúin í verkefni gerast hlutirnir hratt. Ætli megi ekki lýsa hugarástandinu mínu flesta daga eins og það séu korter í jól. Ég á eftir að þrífa heimilið og elda matinn, kaupa jólagjöf fyrir manninn, pakka öllu inni, ekki búin að skreyta jólatréð og allt í glimmer.

 

En nóg um minn heillandi og skapandi huga. Allt í einu er komið að útskrift. Þannig týnist tíminn, eins og Raggi Bjarna söng. Mín vegferð á þennan stað hefur ekki gengið áfallalaust fyrir sig. Ég hef verið stoppuð af margsinnis á þessari leið; barneignir, raunfærnismat Iðunnar, húsakaup, meiri barneignir og veikindi. Lífið, sjáið þið til! Lífið! En biðin og eftirvænting er þess virði. Það er afrek að vera komin hingað og ég er stolt og ánægð með sjálfa mig. Tíminn minn hér hefur verið mjög skemmtilegur, hópurinn samheldinn og kennararnir skemmtilegir og fagmenn fram í fingurgóma.

​

Oft er auðveldara að flýja það sem hræðir mann í staðinn fyrir að taka áskoruninni. Ef maður tekur auðveldu leiðina missir maður oft af tækifærum og fegurðinni í kringum sig. Þegar ég fyllist þessari hræðslu, líkt og ég gerði þegar ég ákvað að taka skrefið að klára þetta nám, þá hef ég orð fasteignamógúlsins George Adair hug fast, og ég held að við höfum öll gott af því að fylgja þeim:

“Everything you’ve ever wanted
is on the other side of fear.”

George Adair

Andrea Símonardóttir

  • Facebook Clean
bottom of page